FORSÍÐA | UM HÁTÍÐINA | UPPLÝSINGAR | MIÐASALA | 2020 | 2019 | 2018 | 2017 | 2016 | 2015 | 2014 | 2013 | 2012 | 2011 | 2010

 


Hammondhátíð Djúpavogs 2011

Bj. Hafþór Guðmundsson og Ólafur Björnsson voru sérlegir rýnar Hammondhátíðar 2011.
Hér fyrir neðan má sjá umfjallanir eftir þá fyrir alla þrjá daga hátíðarinnar.

Þá er einnig hægt að skoða myndir frá hverju kvöldi, en tenglar á þær eru neðst í hverri rýni


Fimmtudagurinn

- Fyrsti í Hammond 2011 -

Mýflugurnar eru ekki vaknaðar til lífsins í Mývatnssveit en engu að síður hröðuðu Svavar og Silvía sér þaðan líkt og mýflugnager væri á hælum þeirra. Erindið var þó að ná í tæka tíð á upphaf sjöttu Hammondhátíðar á Djúpavogi m.a. til þess að geta flutt setningarávarpið á réttum tíma, sem tókst og vel það. Eftir stutt innlegg í töluðu máli flutti Svavar einn af sálmum Jóhanns Sebastían Bach á Hammond orgel Kidda í Hjálmum, sem er heiðurshljóðfæri hátíðarinnar. Því hefur verið haldið fram að Bach hafi hugsað í kössum (jössum), enda hentar tónlist hans ákaflega vel fyrir jassara og t.d. mun betur en margt af því sem Grieg, Tjækofskí og Sveinbjörn Sveinbjörnsson létu eftir sig. Eftir setningarsálminn fór síðan allt í gang.

HETJUR Í EINN DAG ??

Þar af leiðandi steig Tónleikafélag Djúpavogs á svið og ég beið eftir því, hvort þeim tækist að sýna fram á að þeir gætu orðið hetjur í meira en einn dag. Tilvísunin er í eitt af þekktustu lögum David Bowie, sem heitir Heroes og í textanum segir "We can be heroes, just for one day", sem útleggst "við getum sko alveg verið hetjur, alla vega í einn dag". Mín skoðun er sú að með framgöngu sinni hafi þeir Tónleikafélagar stimplað sig þannig inn í hjörtu fjölmargra áheyrenda (u.þ.b. 100) að þeir verði taldir hetjur hér um slóðir í meira en einn dag. Hetjur þurfa jú gjarnan að vera djarfar og til þurfti ákveðna dirfsku að velja efnisskrá eingöngu úr smiðju David Bowie, eða Davíðs Bogasonar, eins og hinn „svali“ söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar, Kristján Ingimarsson, kallaði hann í kynningum sínum.

Það verður að segjast eins og er að tónlist David Bowie er líklega ekki mjög þekkt meðal þeirra sem nýlega voru horfnir úr hópi þeirra, er mega mæta á samkomu sem þessa án foreldra. Við sem eldri erum þekkjum að sjálfsögðu mörg laga David Bowie og vissulega hefur hann markað djúp spor í tónlistarsögunni. Hann má ekki beint kalla arftaka Bítlanna, enda allt önnur týpa, þrátt fyrir samhljóm með rödd hans og John Lennon á ákveðnu tímabili. Þvert á móti er hann sá sem kom í staðinn fyrir þá, án þess að menn áttuðu sig á því fyrr en löngu seinna. Salurinn var þó strax með á nótunum og í loftinu lá að það yrði meira gaman á Hótel Framtíð, en að hanga fyrir framan „imbann“ og horfa á Moldavíu komast í úrslit í Júgravísunum.

Þetta kvöld var Tónleikafélagið frekar fámennt á sviðinu eins og „Stjáni svali“ tók fram í upphafi kynningarinnar og t.d. engar söngdívur eins og stundum hefur verið. Eins vantaði ýmsa gítarleikara í hópinn, sbr. fjarveru Ýmis. Það var því ekki öfundsvert hlutskipti Stjána að þurfa að bregða sér í margra þeirra kvikinda líki sem David Bowie hefur skapað, án þess að hafa nokkurt bakland í söngnum. Í flestum tilfellum kom það ekki að sök og lögin komust prýðilega til skila á þann hátt sem þau voru framsett. Flutningurinn var þéttur og þar vóg þungt aðkoma hljóðmannsins, Guðjóns Birgis Jóhannssonar hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands. Hann hafði unnið vinnuna sína vel, er greinilega vel tækjum búinn og virðist kunna sitt fag þannig að fyllilega verður óþarft að sækja vatnið yfir brúna eða undir lækinn meðan Austfirðingar eiga aðgang slíkri þjónustu í eða nálægt heimabyggð.

Um frammistöðu einstakra tónlistarmanna í hljómsveitinni þarf ekki að hafa mörg orð vegna þess að þeir komu fram sem heild. Bítið í þeim lögum David Bowie, sem urðu fyrir valinu í gær er þannig að taktvissir menn eiga auðvelt með að elta ólar við það og af þeim sökum gekk Hammond-, bassa-, og gítarleikaranum vel að elta Ólaf við trommusettið, sem er taktfastur með afbrigðum líkt og grjóthrun í Njarðvíkurskriðum. Nægir að vitna í vin minn Stefán Bragason í því sambandi, en hann var einn fárra sem nýtti sér Axarveginn þetta kvöld í þessu sambandi og þakkaði fyrir sig á þennan hátt:

Hvað get ég orðlaus svo sem sagt,
þó sæmir að fyrir þakki.
Ég hlýddi á Óla trommu takt
og táraðist eins og krakki.


Í mörgum lögum Bowie ægir saman hljómum en Ægir var með þá á hreinu. Hann og Guðmundur Hjálmar báru Ægishjálm yfir hljómaganginn og þekktir gítareffektar úr lögum Bowie skiluðu sér til enda. Guðmundur góði er einfaldlega afburðabassaleikari og þarna má segja að hann hafi klifið eitt hið hæsta Heiðnaberg á ferli sínum.

Af mörgum þeim furðuskepnum sem David Bowie hefur breytt sér í valdi Kristján, af meðfæddri hógværð, eina af þeim „persónum“ sem láta glimmerdósir og hársprey eiga sig, áður en stigið er á svið. Hann og félagar hans komu á framfæri eins og að framan greinir mörgum þekktustu lögum kappans, svo sem China girl, sem Bowie samdi með Iggy pop 1975, Changes, Modern love, Rebel Rebel o.fl. Uppklappslögin voru All the young dudes og Ziggy Stardust, en sjálfur hefði ég viljað fá að heyra aftur Heroes.

Það var sannarlega þakkarvert fyrir okkur sem höfum látið plöturnar hans Bowie rykfalla örlítið í hillunum að fá hann þarna aftur beint í æð. Framganga Tónleikafélagsins var líklega þeirra besta frá upphafi (og þetta segi ég minnugur Pink Floyd tónleikanna þeirra hér um árið).

Kærar þakkir fyrir mig.

bhg

ASA TRÍÓ STÍGUR Á STOKK

Djassararnir í ASA tríói stigu á stokk eftir hlé og var enginn sérstakur asi á þeim í byrjun í hinum suðræna takti Þeloníusar Monk. Hljómsveitina skipuðu þetta kvöld Agnar Már Magnússon, hljómborðsleikari, Andrés Þór Gunnlaugsson, Gretsch-gítarleikari og Einar Valur Scheving, trommuleikari. Hljómsveitin heitir ASA tríó út af upphafsstöfum Agnars, Scott McLemore og Andrésar, en getur átt við með Einar Val við trommurnar, sem er schelfing góður á sínu sviði og var ekki að sjá og heyra að hann væri í afleysingatúr.

Í raun er ósanngjarnt að tala um tríó í þessu sambandi því afburða bassalína Agnars Más á forláta Roland-skemmtara Tónlistarskólans, sem aldrei hefur munað fífil sinn fegurri, virkaði þannig að í raun virtist kominn fullgildur (aukameð)limur í tróíið. Í stuttu máli sagt eru þeir félagar allir háklassaspilarar og í raun er okkur til efs, hvort „band“ færari tónlistarmanna hafi spilað á Hammondhátíð. Auk þess var spilagleðin í góðu lagi og sérstaklega var ánægjulegt að horfa á Andrés Þór, sem spilaði ekki bara með andlitinu, heldur gjörsamlega  frá hvirfli til ilja, sem yljaði auðvitað mörgum viðstöddum. Efnisvalið var margbreytilegt og m.a. brugðu þeir sér yfir í angurvært lag úr smiðju John Lennon (Beautiful boy) sem salurinn taldi greinilega einn af hápunkuntum flutnings þeirra félaga. Skömmu eftir kom þriggja hljóma melódía frá Ray Charles (I got a woman). Flest lögin voru þannig uppbyggð, eins og gjarnan er matreitt í djasstónlist, að gítar og eftir atvikum Hammondorgel kynntu til sögunnar stef, sem spunnið var út frá á þann hátt að allir hljóðfæraleikarar fengu að njóta sín.  Sjaldan hafa verið tekin jafn mörg trommusóló á Hammondhátíð eins og hér var gert og var aðdáunarvert að sjá og heyra hve auðveldlega Einar Valur renndi sér í þau og hve auðvelt þeir félagar hans gerðu honum að fíla þau í botn með innskotum á viðeigandi stöðum.  Jafnvel fígúra annars undirritaðs á trommusettinu virtist leggja við hlustir og gott ef ekki undir flatt. Tónleikunum lauk kl. 11:38, eftir uppklappslag og þá var það enginn annar en Jimi Hendrix, sem varð þess heiðurs aðnjótandi að vera teflt fram af hinu vel spilandi bandi.

Um leið og við þökkum þeim félögum kærlega fyrir okkur leyfum við okkur að halda því fram, að ef þetta kvöld er vísbending um það sem koma skal þá er ljóst að Hammondhátíð Djúpavogs 2011 mun skrá nafn sitt á spjald hennar í heild sem viðburðurinn, er enginn hefði viljað missa af. Gildir það ekki sízt um þá fjölmörgu námsmenn frá Djúpavogi, sem nú sitja sveittir yfir prófum eða undirbúningi þeirra, en hefðu mikið fremur viljað geta blandað geði við félaga sína og vini heima fyrir eins og þeir hafa dyggilega gert undanfarin ár.

Í kvöld stígur Landsliðið á stokk með Pál Rósinkranz í broddi fylkingar. Eitt er víst að alltaf verður // ákaflega gaman þá.

Myndir frá fyrsta kvöldinu tóku Andrés Skúlason og Birgir Th. Ágústsson.

ób / bhg

Föstudagurinn

- Annar í Hammond 2011 -

Ein af bókum Guðbergs Bergssonar heitir „Tómas Jónsson – metsölubók“. Sögurnar í henni eru sagðar af karlægu gamalmenni með þessu nafni. Í gær hittum við fyrir lagkært ungmenni og afburða efnilegan hammondleikara, Tómas Jónsson, sem hefur flest til að bera að verða "metsölubók" á íslenska tónlistarsviðinu. Í því sambandi er nóg að benda á að honum var á tónleikunum í gær ætlað að fylla sæti heiðursverðlaunahafa íslensku tónlistarverðlaunanna, Þóris Baldurssonar.

POTTÞÉTT KVÖLD

Við erum semsagt að tala um tónleika föstudagskvöldsins en þá var kynnt til sögunnar blúslandsliðið á Íslandi, sem Dóri Braga hefur af vinsemd við Djúpavog og Svavar Sigurðsson teflt fram öll árin utan eitt, þegar Eyjafjallajökull sýndi á sér klærnar og hamlaði því að Dóri kæmist á réttum tíma á Djúpavog. Sjá umfjöllun um Hammondhátíð 2010

Með Dóra á sviðinu fyrir hlé þetta kvöld voru m.a trommarinn Jóhann sterki Hjörleifsson og bassaleikarinn Róbert knái Þórhallsson. Hinn síðarnefndi var að koma hingað í þriðja sinn, að við teljum og jafnan aufúsugestur. Þá var í för með Dóra Guðmundur (ekki nokkur) Pétursson og hann var að sýna á sér klærnar hér einnig í þriðja sinn.Téður Tómas Jónsson var eingöngu í hið fyrsta en vonandi ekki síðasta. Dóri sjálfur var að koma í fimmta sinn og sem áður hafði hann tekið að sér að vera landsliðsþjálfari en greinilegt var að hann hafði tilnefnt Guðmund Pétursson sem aðstoðarlandsliðsþjálfara, auk þess að virkja hann í söngnum fyrir hlé. Var það var kærkomin nýbreytni fyrir Hammondhátíðargesti að hlusta á blússkotna rödd hans, sem hann hefur lítið beitt hér meðal vor.

Við ætlum ekki að hafa mörg orð um frammistöðu hvers og eins, enda er það tryggt vörumerki og ávísun á frábæra spilara og góða stemmningu, þegar Dóri Braga mætir með félögum sínum á Hammondhátíð á Djúpavogi. Þó verður ekki hjá því komist að nefna stórkostlega frammistöðu Guðmundar Péturssonar, sem tók hvert heimsklassa sólóið á fætur öðru eins og að drekka bráðið blý með nefinu.

Hins vegar hefði ekki komið að sök að hafa líflegar kynningar á lögunum fyrir hlé, þó að það sé vissulega ákveðinn stíll yfir því að renna sér hægt og hljótt inn í næsta lag þegar einu er lokið.

Síðasta lag fyrir hlé var hið þekkta Shadowslag Sleep walk, sem reyndar fjölmargar hljómsveitir hafa tekið upp á strengi sína. Margir halda eflaust að það sé eftir Marvin, Welch og Farrar, en hið rétta er að lagið sömdu bræðurnir Santo og Johnny Farina árið 1959.

Eftir hlé bættist skrautfjöður í hatt Dóra Braga þegar Páll Rósinkranz steig á svið. Hann var að koma hingað í fyrsta skipti, en átti reyndar að vera á fyrstu hátíðinni, 2006, bresti okkur ekki minni. Palli er afburðasöngvari og kunnu tónleikagestir svo sannarlega að meta framlag hans og þeirra félaga. Hann átti það til að kynna lögin stuttlega, sem átti vel við að okkar mati. Eftirminnilegum tónleikum lauk rúmlega ellefu og klöppuðu um 200 áheyrendur þeim félögum verðskuldað lof í lófa.

Þá verður að minnast á þátt hljóðmannsins, Guðjón Birgis Jóhannssonar, sem stóð sig svo sannarlega í stykkinu líkt og fyrsta kvöldið. Að öðru leyti vísum við  til framlags hans í umfjöllun okkar frá því í gær.

Í kvöld verða hinir þekktu Baggalútsmenn með tvöfalda skemmtun. Kl. 19:00 opnar Hótel Framtíð fyrir Hammondhátíðargesti og þá ætla þeir með sínu nefi að kynna úrslitakeppnina í Eurovision. Fljótalega eftir að sigurlagið hefur verið kunngjört stíga þeir á svið með sitt eiginlega prógramm og verður sjón (heyrn) eflaust sögu ríkari.

Myndirnar með umfjölluninni hér að ofan tóku sem fyrr Birgir Th. Ágústsson og Andrés Skúlason.

ób/bhg/ób

Laugardagurinn

- Þriðji í Hammond 2011 -

ÞEIR GERA JAFNVEL JÚRÓVISJÓN ÁHUGAVERÐA

Það er ótrúlegt hvaða áhrif söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur á heilu samfélögin. Alla vega spyr maður stundum sjálfan sig að því, svona eftir á, hafi maður sett sig í stellingar til að fylgjast með misjöfnu gengi Íslands, hvort tímanum hefði ekki verið betur varið í eitthvað annað. Á tímabili leit út fyrir að aflýsa þyrfti framgöngu Baggalúts á Hammondhátíð Djúpavogs, þegar vísir menn uppgötvuðu að auglýstir tónleikar rækjust illþyrmilega á við þann eðla atburð er nefnist úrslitakvöld Júróvísjón. "Kiddi (Hjálmur í Baggalúti)" mun hafa átt frumkvæði að því að hvetja Svavar og kó að sjá til þess að sjálfum tónleikunum yrði frestað um tæpar tvær klukkustundir og atburðinum varpað á tjald á Hótel Framtíð meðan borðin svignuðu undir veitingum þeim, sem í boði kynnu að verða. Jafnframt bauð hann fram kynna kvöldsins. Voru það öngvir aðrir en Karl Sigurðsson, söngvari og borgarfulltrúi og hinn snjalli texta- og lagasmiður Bragi Valdimar Skúlason. Til að gera langa sögu stutta var hápunktur þessa hluta samkomunnar framganga þeirra félaga  og stigagjöf vina Józsefs Kiss í Ungverjalandi upp á "dúsöpúang". Flestir viðstaddir voru sammála um að þessi keppni hafi orðið sú skemmtilegasta sem þeir þekktu til - alls ekki vegna keppninnar sem slíkrar, heldur vegna hnyttinna lýsinga Baggalútsmanna sem yfirleitt og með réttu yfirgnæfðu flutning laganna sjálfra.

Eftir langa bið hófust svo tónleikarnir. Baggalútur er síbreytilegt fyrirbæri. Allur gangur er á því hversu margir hljóðfæraleikarar eru á sviðinu og áheyrendur vita sjaldnast við hverju þeir eiga að búast í lagavali, enda hafa sjálfsagt fáar íslenskar hljómsveitar gefið út jafn fjölbreytta flóru platna - allt frá angurværri Havaíplötu yfir í argasta aðventuþungarokk. Samt var hvorugt af framangreindu í hávegum haft þetta kvöld, þótt franska "jólalagið" Saddur (Je t'aime... moi non plus) eftir Serge Gainsbourg hafi fengið að fljóta með. Aðdáunarvert var að fylgjast með aðalsöngvurunum Guðmundi Pálssyni og Karli Sigurðssyni auk bakradda fara með hvern snilldartextann eftir Braga Valdimar á fætur öðrum, án þess að séð yrði að "teleprompter" (textavél) væri í seilingarfjarlægð. Svo mikið var alla vega víst að ekki var textastatífunum fyrir að fara. Tónlist Baggalútsmanna þekkja flestir, þótt sennilega séu þeirra einna þekktastir fyrir snilldarleg aðventu- og jólalög sín. Ekki vantaði undirleikarana og t.d. voru fjórir gítarleikarar á sviðinu, n.t.t. Þorsteinn (Austfirðingur) Einarsson, Guðmundur Pétursson, Guðmundur Kristinn Jónsson og Bragi Valdimar Skúlason. Um bassaleikinn sá Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson og reyndist hann fullfær um það, enda einn besti bassaleikari landsins. Um trommuslátt sá "Hallormurinn" Kristinn Snær Agnarsson og hélt hann svo sannarlega bandinu saman á sinn einstaklega taktvissa hátt. Síðastur og ekki sístur (en hæstur) var að sjálfsögðu Hammondleikarinn Sigurður Guðmundsson, sem vissulega hafði sig minna í frammi en sumir félaga hans, en er ómissandi hluti af bandinu. Það dylst svo sem engum sem að til þekkja að uppistaðan í þessu bandi eru sömu menn og skipa hina landsfrægu Hjálma, er spiluðu einmitt á ógleymanlegum tónleikum á Hótel Framtíð fyrir rúmu ári síðan og settu aðsóknarmet, sem seint mun verða bætt (eða hvað). Hljóðmaður þetta kvöld kom úr smiðju hljómsveitarinnar, hvörs nafn vér vitum eigi.

Eins og áður sagði er Baggalúturinn fjölbreytt fyrirbæri, en þarna má segja að Köntrísveit Baggalúts hafi verið saman komin og lagavalið eftir því. Þeir fóru rólega af stað með laginu "Pabbi þarf að vinna", sem Rúnar heitinn Júlíusson söng með þeim á ódauðlegan hátt á sínum tíma. Upp frá því jókst hraðinn á taktinum alltaf meir og meir, þangað til þeir settu kofann hálfpartinn á hvolf með laginu "Settu brennivín í mjólkurglasið vinan" undir lokin. Það hefur vissulega gerst áður að tónleikagestir hafi farið að dansa á Hammondhátíðum og má finna dæmi um það í umfjöllun hátíða fyrri ára á síðunni djupivogur.is/hammond. Fótafimir gestir komu þetta kvöld hvað eftir annað á litla plássið fyrir framan hljómsveitarpallinn og í lokin var það orðið fyllra en nokkuð annað í salnum. Eini gallinn við tónleikana var hve seint þeir byrjuðu, að ekki sé talað um hve þeir enduðu snemma.

Við þökkum fyrir okkur.

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason

bhg / ób

Sunnudagurinn

- Fjórði í Hammond 2011 -

Í BLJÚGRI BÆN ÞÖKKUM VÉR HÁTÍÐARSTUNDINA Í DJÚPAVOGSKIRKJU

Tónlistaratburðir þeirra ára, sem hluti af Hammond hátíðinni hefur farið fram í kirkjunni okkar á Djúpavogi hafa orðið mörgum minnisstæðir og aðsókn jafnan góð. Um 140 manns voru í kirkjunni þennan sunnudag og fjöldi aðkomufólks. Verður samt hér og nú sérstaklega að þakka Hornfirðingum dugnað þeirra við að sækja einstaka atburði hátíðarinnar, en einnig mátti sjá mörg kunnugleg andlit og m.a. árvissa vorboða frá Akranesi og víðar að.
Það var vel til fundið að ljúka hátíð ársins 2011 á ljúfum nótum í Djúpavogskirkju, en þar er hljómburðurinn frábær, einn sá bezti hér eystra og jafnvel þótt víðar væri leitað.
Ekki var heldur kastað til höndum í vali flytjenda eins og nú greinir frá:
Fyrri hluti tónleikanna var á vegum „heimamanna“, þar sem að Jószef Bela Kiss og eiginkona hans, Andrea eru starfandi tónlistarkennarar á Djúpavogi. Þau eru að ljúka sínu 3ja starfsári hér . Með þeim í för var Guðlaug Hestnes frá Hornafirði, en þessa geðþekku og fáguðu tónlistarkonu má alveg telja með heimamönnum hér m.a. vegna hins góða og vaxandi samstarfs sem hún og Jószef hafa komið á. Hann er hámenntaður söngvari og var vissulega mest áberandi í tónlistaratriðum þeirra (bæði á velli og með hvellandi söng).

Fyrst á efnisskránni var Largo úr óperunni Xerxes eftir Händel. Þar lék Andrea ofurblítt undir á fiðlu (eina lagið sem hún tók þátt í að þessu sinni), ásamt Guðlaugu, sem fór fimum fingrum um píanóið.
Að því búnu fylgdi arían Pieta Signore eftir Stradella, sem Jószef flutti af „svölum“ kirkjunnar við undirleik Guðlaugar.
Því næst kom Santa Lucia, Neapolitanskt sönglag (frá Ítalíu) og má segja að salurinn hafi sprungið af hrifningu þegar söngvarinn renndi sér fyrirhafnarlaust upp undir á háa C-ið. Síðan kom Sumarkveðja eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson við texta Páls Ólafssonar. Var það eina íslenzka lagið að þessu sinni og er ótrúlegt hve góðum framburði söngvarinn er búinn að ná. Uppklappslagið var Aría Alfreds úr óperunni La Traviata eftir Verdi og var greinilegt að salurinn vildi fá að heyra meira, en því miður gekk það ekki eftir.

Í stuttu máli má segja, að framganga „tríósins“ hafi verið slík að hún ein og sér réttlætti fyllilega mætingu á atburðinn, sem þó hefði talizt í styttra lagi hefði ekki meira fylgt á eftir. Undirstrika verður hve það er sérhverju byggðarlagi mikilvægt að hafa af að státa jafn góðu og fórnfúsu tónlistarfólki og hin framangreind eru öll þrjú.  T.d. verður framlag Guðlaugar Hestnes til tónlistarlífs á Suð-Austurlandi seint fullþakkað, en hún hefur starfað að tónlistarmálum í sinni heimabyggð í áratugi.

En þetta var bara byrjunin.

Nú stigu á pall hjónin Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson, sem bæði eru landsþekktir tónlistarmenn. Og hvílík framganga, bæði í söng, undirleik, látlausum og umfram allt einlægum kynningum beggja, einkum þó Ellenar. Má jafnvel segja að hún hafi virkað sem þaulvanur predikari og sýnt jákvæðni á flestum sviðum, þótt örlítið bæri á að henni eins og fleirum tónlistarmönnum væri í nöp við Tónlistarhúsið Hörpu. Lögin komu á færibandi, flest blíð og ljúf og hentuðu svo einkar vel stað og stund, sem var glögg sönnun þess, hvílíkur heimsviðburður uppfinning Hammond orgelsins var og hver guðsgjöf það er og hefur verið fyrir söfnuði víða um lönd, sem ekki hafa pláss eða peninga fyrir pípuorgelunum (með allri virðingu fyrir þeim). Píanóið var þó á sínum stað og færði Eyþór sig á milli hljóðfæra og notaði jafnvel þau bæði í tilfellum í einu og sama laginu.

Fyrsta lagið var „Ómissandi fólk“ eftir Magnús Eiríksson, þann mikla snilling. Síðar á efnisskránni komu lög ME; „Lifði og dó í Reykjavík“ og „Elska þig“ (en í þeim spilaði Eyþór undir á píanóið með bravúr). Snemma á efnisskránni var sálmurinn „Heyr himnasmiður“ við texta Hallgríms Péturssonar og síðar kom annar  sálmur við texta sálmaskáldsins. Ellen flutti tvö lög eftir sig og hið fyrra af diskinum „Let me be there“, mjög áheyrilegt og henni tókst að fá salinn til að raula undir hið angurblíða viðlag. Síðar kom „Draumey“ – lag hennar við texta Sjón, ákaflega gott og vel flutt. Jón Múli átti sinn sess í dagskránni og m.a. „djassaði“  Eyþór á píanóið þekktasta verk Múlans, Vikivaki, sem maður fær aldrei skilið af hverju hefur ekki hlotið þann eilífa tónlistarlega sess sem því ber á heimsvísu – svo frábært sem það er. Ekki skemmdi flutningurinn fyrir, þótt ákveðinn galsi væri yfir hinum geðþekka tónlistarmanni, sem reyndar var klæddur eins og enskur sjentilmaður á refaveiðum í skozku hálöndunum (eða klipptur út úr „brezkum blúnduþætti í sjónvarpinu“ með sögusviði kringum miðja nítjándu öld). Tvö lög þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona fylgdu á eftir og ekki má gleyma lagi bróður Ellenar, KK, Angel (I think of Angels), sem flutt var af miklum virðuleik, sem því hæfir. Ellen er dökkhærð en flutningur hennar á lagi Emils Thoroddsen við texta Jóns Thoroddsen „Litfríð og ljóshærð“ gæti eins átt við um hana sjálfa, hæfilega handsmáa en þó einkum hýreyga.
Eins og margir sem hingað koma virðast þau hafa fallið fyrir Djúpavogi og Ellen kvaðst í kynningum sínum vel getað hugsað sér að eiga hús á staðnum. Vonandi gengur það eftir en eitt er víst að þeirra bíður tónlistarhús hérna og tryggir aðdáendur, því öruggt má telja að tónleikar með þeim myndu laða að sér enn fleiri áheyrendur en þarna voru.
Hafi þau og allir sem stóðu að framangreindum tónleikum kæra þökk fyrir.

Um kl. 15:45 flutti uppfinningamaðurinn Svavar Sigurðsson lokáavarp vegna sjöttu Hammondhátíðar Djúpavogs og þakkaði öllum þeim, sem komu henni á laggirnar og hafa stutt frá upphafi. Nefndi hann sérstaklega Menningarráð Austurlands í því sambandi, að ógleymdum þeim fjölmörgu, sem hátíðina sækja og skapa því í raun endanlegan grunn undir hana. Einnig þakkaði hann Tónleikafélagi Djúpavogs fyrir ómetanlegt framlag, bæði í formi spilamennsku, lán á hljóðfærum og aðstoð fjölmarga þætti hátíðarinnar. Þá þakkaði stjórn Tónlistarfélags Djúpavogs, sem hefur verið bakland hátíðarinnar frá upphafi og gat sérstaklega aðhaldssemi gjaldkera félagsins, Hlífar Herbjörnsdóttur, sem hann taldi ómetanlega. Að lokum gaf Svavar sterklega í skyn að fyrir næstu hátíð yrði búið að kaupa notað Hammond  orgel (framleiðslu þeirra er fyrir löngu hætt) og ekki yrði ráðist á garðinn þar sem hann væri lægstur, því stefnan hefði verið sett á B3 gerðina af hljóðfærinu. Vonum við svo sannarlega að þetta gangi eftir.

Að þessu búnu bauð hann gestum til kaffisamsætis, á vegum Kvenfélagsins Vöku, sem var framlag þess til hátíðarinnar og munar um minna.

bhg

Við annálsritarar þökkum engum fyrir nema tónlistarmönnunum – það er okkar hlutverk að fylgjast með framgöngu þeirra og þeir ullu okkur svo sannarlega ekki vonbrigðum í maí 2011.

Meðfylgjandi myndir tók Andrés Skúlason.

ób / bhg

 

 

Hafa samband